Mér líður eins og það hafi verið kastað köldu vatni framan í mig. Ástæðan fyrir því er að vinnan hérna getur verið dálítið rosaleg.
Eins og þegar ég er á Íslandi að vinna í löggunni og við komum að líki eða manneskju sem er að deyja þá er líkið ekki það versta, heldur fjölskyldan sem er eftir. Og ég upplifði eitthvað svoleiðis í gær og mér stóð sko ekki á sama. Ég stóð út á miðri götu og blótaði á íslensku til hægri og vinstri. Blótaði fúlmennunum sem að koma á miðjum degi og skjóta niður fólk sem er að ná í börnin sín úr skólanum eða eitthvað þvíumlíkt. Ég blótaði öllu stríði til helvítis og því sem því fylgir.
Þetta er víst einn af fylgifiskunum :(
Af hverju gátu ekki þessir stóru kallar hætt að skalla í hvorn annan og bara farið að bíta gras eða bara klórað hvorum öðrum á bakinu. Svona eins og við gerum öðru hvoru. Af hverju ekki?
Helvítis kjánar að vera að stangast svona á
Fólkið hérna er alveg að gefast upp, maturinn að klárast, dísel ekki til, sprengjuóhljóð dynja í eyrum okkar allan daginn, útivistabann á milli 18.00-05.00. Úffffff, lífið er gott á
Íslandi þar sem að við höfum bara áhyggjur af því að það sé dýrt í ræktina!
En ég er samt rosalega ánægð yfir að hafa komið hingað, ég er að læra fullt af nýjum hlutum og er að kynnast Sri Lanka búum sem að eru bara æðislegt fólk. Og allir eru svo góðir við útlendinga hérna. Það er alveg ótrúlegt.
Varð bara að setja þessa mynd inn til að létta skapið.....Sylvía dugar alltaf og svo plús nýjasta superstjarnan okkar :)
Jæja ætla ekki að skrifa meira í dag. Vill samt að þið vitið að mér þykir ROSALEGA vænt um ykkur. Í alvörunni, ég meina það 100%, i promise...........
Lots of love from Sri.
P.s. læt fljóta með ljóð um frið sem að Vignir sendi mér.
Þula frá Týli
Horfumst í augu
fögnum morgunhvítri sólinni
laugum iljar okkar í dögginni
biðjum um frið
leggjum grasið undir vanga okkar
vermum frækornið í lófa okkar
stígum varlega á moldina
biðjum um frið
borum fingrinum í sandinn
sendum vísuna út í vindinn
speglum okkur í hylnum
biðjum um frið
reikum um fjárgöturnar
teljum stjörnurnar
hlustum á silfurbjöllurnar
biðjum um frið
göngum að leiði móður okkar
göngum að leiði föður okkar
minnumst hins liðna
biðjum um frið
tökum í hönd systur okkar
tökum í hönd bróður okkar
lyftum því sem er
biðjum um frið
lítum í vöggu dóttur okkar
lítum í vöggu sonar okkar
elskum hið ókomna
biðjum um frið
horfumst í augu
horfumst í augu gegnum fjarlægðirnar
horfumst í augu gegnum aldirnar
biðjum um frið.
Geta ekki öll dýrin í skóginum bara verið vinir?
Jóhannes úr Kötlum